Varnir Íslands

Í Fréttablaðinu í dag þann 1 Desember 2007, birtist grein um varnarmál Íslensku þjóðarinnar sem ber yfirskriftina "Varnir Íslands á krossgötum". Þar er greint frá því að í öllum aðalatriðum séu samstarfsflokkarnir sammála um þá skipan mála sem Forsætis- og Utanríkisráðherrar hafa viljað fara, en samt heyrast raddir úr röðum Sjálfstæðismanna um að verkefni Ratsjárstofnunar verði færð í Björgunarmiðstöðina í Skógarhlíð og æfingar herþotna á Íslandi endurskoðaðar.

Þessar raddir eru að sjálfsögðu raddir Björns Bjarnasonar og Jóns Gunnarssonar sem nýverið settist á þing sem varamaður, eftir því sem mér skilst. Þeir kumpánar vilja setja upp lágmarkseftirlit í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð og loka stjórnstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Þessir menn hafa mér vitanlega ekki kynnt sér eitt né neitt um starfsemi stjórnstöðvarinnar og hvernig eftirlit er framkvæmt þar, hvað þá að þeir geri sér grein fyrir þeim búnaði sem þarf til að halda uppi eftirliti. Ég er ekki viss um að sá búnaður sem þarf til komist einfaldlega fyrir í húsakynnum Björgunarmiðstöðvarinnar sem býr við afar þröngan kost nú í dag, hvað þá ef þessu væri bætt við.

Hvað varðar þörfina á loftvörnum, þá má deila um það. Við Íslendingar getum þó ekki tekið þá hrokafullu ákvörðun sjálfir að ekki sé þörf á einhverskonar vörnum og eftirliti hér, en í öðrum löndum í kringum okkur sé talin mikil þörf á slíku. Norðmenn, Danir, Svíar, Finnar og Bretar verja miklum fjárhæðum til slíks eftirlits svo ekki sé talað um Frakka, Þjóðverja, Spánverja og aðrar NATO þjóðir sem telja fulla þörf á að því að eftirlit sé öflugt. Svo koma menn eins og Björn og Jón og berja sér á brjóst og telja lágmarkseftirlit loftrýmis landsins samhliða útköllum á hjálparsveitum, lögreglu og strandgæslu geti farið saman. Þetta gera þeir án þess að kynna sér hvernig þetta eftirlit fer fram og hvaða búnað þarf til.

Rússland er að verða herveldi aftur. Þeir styrkjast dag frá degi og nú er svo komið að kjarnorkukafbátar þeirra eru komnir af stað aftur. Hvernig ætli Björn og Jón vilji haga eftirliti á þeim í framtíðinni, kannski líka frá Skógarhlíðinni? Eina leiðin til þess að fylgjast með þeim er frá kafbátaleitarflugvélum sem flestar nágrannaþjóðir okkar eiga og reka. Ef engin starfsemi fer fram á Keflavíkurflugvelli og engar æfingar fara fram glatast sú þekking sem skapast hefur og þá er ekki hægt að framkvæma þetta eftirlit frá Íslandi því tækin og mannskapinn vantar.

Ég skora á þá félaga og samflokksmenn mína að fara í skoðunartúr um eftirlitsstöðina á Keflavíkurflugvelli. Ég er viss um að Ingibjörg Sólrún mun með glöðu geði hjálpa þeim um aðgang að þeim mannvirkjum sem hafa verið reist til varnar Íslandi og fá fróða menn til að upplýsa þá um það sem gert er þar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að það hljóti að vera misskilningur að telja það að Jón Gunnarsson og Björn Bjarnason séu helst fylgjandi fyrrnefndu skipulagi.

Það fjölmargir Sjálfstæðismenn eru helst hlynntir væri eðlilegt skipulag varnarliðs, þar sem ekki eingöngu væri stundað hernaðarlegt loftvarnareftirlit. Ef menn ætla á annað borð að verja Ísland þarf meira en að fylgjast með ferðum flugvéla. Menn þurfa að getað skotið þær niður, skotið skip innrásarliðs í kaf og skotið óvinahermenn. Sem stendur geta ýmsir ,,borgarlegir'' aðilar tekið að sér síðustu tvö verkefnin, þeir opinberu eru flestir undir Dómsmálaráðuneyti. LHG gæti eflaust líka skotið niður einhverjar flugvélar ef þær flygju beint yfir varðskip.

Ingibjörg Sólrún hefur oft talað um það að ekki eigi að stofna íslenskt varnarlið og að Íslendingar eigi ekki að gegna hermennsku. Því hlýtur að skjóta skökku við fyrir hana að hafa loftvarnareftirlitskerfi. Ef það væri borgaralegt þá hlyti það að vera undir öðru ráðuneyti en því sem fer með varnarmál.

Annars get ég alveg tekið undir það að það saki ekki að hafa almennilegt loftvarnareftirlit og aðgerðarstjórnun á orrustuflugsveitum bandalagsríkja okkar. En það eru engan vegin nægilegar varnir fyrir fullvalda og sjálfstætt ríki. Það þarf í það allra minnsta íslenskt herráð skipað fagmönnum til að skipuleggja varnirnar og samhæfa þá ,,borgaralegu'' aðila sem á hættutímum tæku að sér hernaðarleg verkefni. Kannski nýja Varnarstofnunin muni verða fær um slíkt.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 12:40

2 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

Af hverju geta starfsmenn Ratsjárstofnunar ekki líka sinnt búnaði Vaktstöðvar Siglinga?

Af hverju geta ekki sömu starfsmenn horft á tölvuskjái sem fylgjast með umferð í hafinu við landið og þá tölvuskjái sem fylgjast með umferð um lofthjúpin í kringum landið?

Af hverju má eftirlit með hafinu ekki vera á sömu hendi og eftirlit með lofthjúpnum?

Júlíus Sigurþórsson, 1.12.2007 kl. 13:04

3 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

En að öðru leiti er ég þér sammála. Við þurfum að fylgjast með umferð um loftið hér í kring og það væri vitleysa að leggja niður starfsemi Ratsjárstofnunar.

Júlíus Sigurþórsson, 1.12.2007 kl. 13:06

4 Smámynd: Helgi Jónsson

Hvað varðar Jón og Björn, má skilja á þeim eftri lestur greinarinnar í Fréttablaðinu í morgun, að þeir vilji leggja af rekstur Ratsjárstofnunar og koma fyrir lágmarkseftirliti í Skógarhlíðinni. Það er reyndar ekki alltaf hægt að trúa öllu sem birtist í Fréttablaðinu og eftir lestur pistils Björns í dag á heimasíðu hans, þá ber við annan hljóm. Þar mælir hann ekki á móti því að halda uppi öflugu eftirlitskerfi yfir landinu og áframhaldandi rekstri ratsjárkerfisins.

Hvað varðar hermennsku þjóðarinnar þá er það öllum ljóst að ekki verður stofnaður Íslenskur her, en það eina sem við getum gert er að vera tilbúnir með tæki, þekkingu og aðbúnað ef svo illa vill til að við þurfum að biðja erlenda aðila um hernaðarhjálp. Við getum ekki verið tilbúnir með svo viðamikinn búnað og aðstöðu ef við látum allt drabbast niður sem byggt hefur verið upp til þess að verja landið.

Það, hvort ekki megi notast við sömu starfsmenn til að fylgjast með umferð á hafinu og lofthjúpnum, þá er því til að svara að sá búnaður sem þarf til að hafa eftirlit með lofthjúpnum er mikill og flókinn og sennilega verður honum ekki viðkomið í því húsnæði ssem Öryggismiðstöðinni er úthlutað. Það væri sennilega betra að flytja Skógarhlíðina eins og hún leggði sig upp á völl heldur en að fara hina leiðina, samt væri það nærri ógerlegt að reka þetta saman svo vit væri í.

Helgi Jónsson, 1.12.2007 kl. 14:50

5 Smámynd: Júlíus Sigurþórsson

En það er hægt að reka búnaðinn áfram í því umhverfi sem hann er. En skjámyndirnar má senda í Skógarhlíðina og vakta hann þar 24/7. Alveg eins og að það sitji einhverjir uppi á Miðnesheiði 24/7 og horfi á skjá með flugupplýsingum og svo sitja einhverjir aðrir niðri í Skógarhlíð 24/7 og horfi á einhvern sjá með upplýsingum um siglingar. Það hlýtur að vera hægt að láta sama manninn horfa á bæði í einu. (en þeir eru væntanlega eitthvað fleiri en einn á vakt).

En auðvitað verður að halda gangandi þeim búnaði sem til er og ekki bara halda honum gangandi, heldur uppfæra hann og halda honum í nútímanum.

En eins og við ræddum áður, þá er vel hægt að setja upp ratsjár til að vakta hafið umhverfis landið og hvaða stofnun er betur til þess fallinn til að sjá um það en Ratsjárstofnun?

Það er vel hægt að aðskilja hernaðarhluta Ratsjárstofnunar um stjórnun orrustuþotna og áframsendingar upplýsinga til NATO og hinsvegar eftirlit í lofthjúpnum sem er borgaralegt flugöryggismál og löggæsla, án þess að þurfa að kljúfa Ratsjárstofnun.

En með því að fela Ratsjárstofnun fleiri verkefni, þá væri hún orðin 70 - 80% borgarleg verkefni og því bæri að skilgreina hana sem slíka. Þó innan hennar yrði hernaðarlegur hluti.

Júlíus Sigurþórsson, 1.12.2007 kl. 15:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Helgi Jónsson
Helgi Jónsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 823

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024

S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband