Gróðurhúsaáfrif

Það getur verið gaman að velta fyrir sér tölfræði í sambandi við gróðurhúsaáhrifin. Einhvers staðar las ég um daginn að kú framleiðir jafnmikið af gróðurhúsalofttegundum og þrír smábílar eða einn bensínfrekur jeppi. Kannski ekki sömu tegundirnar en beljan framleiðir metan og bílarnir koltvísiring og sót, en bæði jafn slæm sem gróðurhúsalofttegund.

Sjávarútvegsráðherra gaf óvænt út leyfi til veiða á nokkrum stórhvölum í fyrra og spyrja má sig í þessu samhengi hvort það er ekki umhverfisvænt og til bjargar lofthjúp jarðar ef veiðar á hvölum yrðu gefnar frjálsar og óheftar. Ég man að ég sá mynd af langreyði, ef minnið hrekkir mig ekki, sem hafði leyst vind neðansjávar og var þetta í fyrsta skiptið sem þvílíkt hafði náðst á mynd. Strókurinn sem kom aftan úr stórhvelinu var þvílíkur að mengunin frá járnblendinu var hjóm eitt í samanburði. Það má þess vegna spyrja sig hvort viðgangur stórhvela við Íslandsstrendur sé ekki í senn mengandi fyrir lofthjúpinn og atvinnuhamlandi til lands og sveita.

Það kom hins vegar fram í fréttinni um kýrnar að það mætti minnka banvænar og mengandi lofttegundir sem koma út um púströrið á þeim, með því að gefa þeim hvítlauk með fóðrinu og væri það kannski atvinnuskapandi fyrir bændur að dreifa hvítlauk um tún og móa. Þetta gæti verið innlegg í umræður um Kyoto bókunina og mengunarkvóta sem þarf til að reisa megi atvinnuskapandi verksmiðjur um allar jarðir.

 


Kvótaskerðing og atvinnumál

Það kom sem reiðarslag fyrir stuttu þegar Sjávarútvegsráðherra tilkynnti um verulega skerðingu á þorskkvóta fyrir árið 2007-2008. Hrun í fiskvinnslu blasir við og ekkert virðist til ráða til að stemma stigu við sívaxandi fólksflótta frá landsbyggðinni til suðvesturhornsins.

Þar sem ég ber ennþá taugar til vestfjarða og fólksins þar, þá langar mig að koma fram með tillögu um nokkra hluti sem í fljótu bragði virðast róttækar en gætu þó orðið til góðs ef ráðamenn þjóðar vorrar taka við sér. Á Glámuhálendinu er gnægð lítilla vatna sem Orkubú Vestfjarða gerði á sínum tíma áætlanir um að virkja með svokallaðri þakrennu aðferð. Þetta er umhverfsvæn aðferð og hefur ekki í för með sér mikla spillingu umhverfis eins og t.d Kárahnjúkavirkjun og virkjanirnar í Þjórsá. Þessi virkjun á Glámu gæti gefið 75-85 MW sem gæti dugað vestfirðingum fyrir öllu því rafmagni sem notað er á Vestfjörðum öllum, um ókomna framtíð. Með þessu yrði líka til stöðugleiki í afhendingu rafrmagns til notenda, og gæti þar með orðið til þess að hægt væri að bjóða erlendum aðilum ódýra og vistvæna orku til sölu, t.d með hýsingu netþjónabúgarða og vistun gagnageymsla. Enginn staður á Íslandi væri betur til þess fallinn þar sem loftslag er frekar kallt og auðvelt að kæla slíka starfsemi niður með minni tilkostnaði. Með þess konar atvinnustarfsemi gæti skapast 50- 70 varanleg störf fyrir tæknimenntað fólk sem og aðra ásamt afleiddum störfum sem gætu orðið 10-20 til viðbótar. Þess konar starfsemi fylgir engin mengun og náttúran fengi að njóta sín án sjónmengunar sem t.d olíuhreinsunarstöð óneitanlega myndi valda svo ekki sé talað um loftmengun sem af slíkri stöð yrði.

Með tilkomu slíkrar virkjunar yrði strax við ákvarðanatökuna sjálfa til þensla sem yrði til .ess að húseignir hækkuðu, fólk sem væri í startholunum að flytja myndi staldra við og ef til vill bíða þar til framkvæmdum lyki og atvinnuástand myndi batna í öðrum greinum þar sem bjartsýni myndi aukast og framkvæmdir fara af stað. Auk alls þessa myndi skapast ráðrúm fyrir aðra staði landsins til framkvæmda þar sem raforka væri þá til á landsnetinu sem ekki væri notuð á vestfjörðum.

Þetta eru svo sem bara hugleiðingar, en orð eru til alls fyrst og ég vona að eitthvað gerist í atvinnumálum vestfirðinga fljótlega.


Heimkoman frá USA

Eftir tæplega 6 tíma flug frá Minneapolis þar sem fram fór rækileg leit í farangri og líkama, komum við heim þar sem tók við 900 manna biðröð. Ég var nokkra stund að átta mig á því hvað olli enkomst þó fljótlega að því að það fór fram leit í öllum handfarangri og málmleit á líkama. Þegar kom að mér spurði ég hvað þetta ætti að fyrirstilla og fékk þau svör að svona gerði kaninn þetta, svo þess vegna væri þetta gert hérna líka, nokkurskonar hefnd.

Ég spurði hvort ekki væri heimskulegt að leita í handfarangri og rölt í gegnum málmleitarhlið við heimkomu, ég hefði skilið ógnina við það að gera einhvern óskunda í flugvél en er það ómögulegt að skilja hvers vegna þetta er gert þegar maður er farinn út úr flugvélinni. Aftur fékk ég mjög gáfulegt svar, "af því bara, þú verður að tala við ríkisstjórnina". Þegar við lentum í Minneapolis var nokkur hundruð manns að fara í gegnum landamæraeftirlit sem gekk smurt, síðan í gegnum tollinn sem hleypti mannfjöldanum í gegn án athugasemda. Hvergi sá ég leitarhunda og gegnumlýsingu á farangri svo ég veit ekki hvers er verið að hefna. Paranoja hefur gripið um sig á Íslandi.

 


Rosaferð til USA

Fór til Minneapolis með svila mínum og mágkonu. Frábær ferð þó stutt hafi verið og örlítið erfið. Svili minn er flugstjóri og fékk ég því að sitja frammí vélinni í flugtaki og lendingu beggja vegna hafsins, frábær upplifun að sjá hvernig þetta er gert og útsýnið öðruvísi.

Það var að sjálfsögðu farið í Mall of America og verslað bunch. Einnig fórum við í verslun sem heitir Sam´s þar sem vörugeymslufílingur er stíllinn, en er mjög ódýr. Þar fæst matvara ýmiskonar bæði fersk og frosin. Ég keypti frosna og kælda matvöru, sem ég kom með heim, í þessari búð og vægast sagt er munur á verði þar og heima. Til dæmis kostar kalkúnabringa, 5kg úrbeinaður klumpur um 11.000kr hér í Samkaup í Keflavík en 20 dollara í Sam´s. Þar sem dollarinn er aðeins á 62kr nú um þessar mundir er hægt að reikna það út að hann kosti um 1250 kr. nærri 1/9 af því sem hann kostar hér.

Þetta litla dæmi segir okkur að matarverð hér er til skammar og verður að gera eitthvað í því og það fljótt. Það má nefna það fyrir þá sem ekki vita að koma má með 3 kg af "Fully Cooked" matvöru á einstakling inn í landið og borga af restinni. Ég borgaði um 1000 kall fyrir aukaþyngdina sem var um 10kg eða samtals 16 kg  þar sem frúin var með í för.

Vonandi gerist eitthvað meira í matvöruverðsmálinu hjá nýrri ríkisstjórn og vona ég að hún geri okkur kleyft að flytja inn verksmiðjuframleidda matvöru án aðflutningsgjalda í náinni framtíð, þess vegna að byrja bara í full eldaðri matvöru án gjalda og svo koll af kolli. Flottustu lambakótilettur sem ég hef séð voru til þarna, ferskar að sjálfsögðu og nautalund ca. 5kg kostaði 60 dollara.

Annars er ömurlegt að heyra fréttir af mínum fyrrum heimabæ Bolungarvík og Flateyri. Þetta fólk sem missir vinnuna af því að mönnum langar að spila golf það sem eftir er ævinnar er illur stakkur búinn. Kvótakallarnir eru að selja um þesar mundir vegna hás verðs kvóta, og sjá sér leik á borði að græða helling en setja fleiri hundruð manns á vergang vegna golfástríðu.

Kvótakerfið er svo sem ágætt en ekki gallalaust og það þyrfti að útdeila kvóta með þeim skilyrðum að hann færi ekki út úr því sveitarfélagi sem hann er kominn til nema að uppfylltum ströngum skilyrðum, svo sem að ekki fáist fólk til að vinna aflann í plássinu eða eitthvað slíkt.

Jæja, þetta lá mér á hjarta núna svona í byrjun Hvítasunnuhelgarinnar 2007. Farið varlega þarna úti og komið heil heim eftir vonandi frábæra helgi. 


Stjórnarmyndunarviðræður

Það er komið á daginn, að Sjallar og Frammarar eru ekki lengur vinir og hafa slitið þeirri ríkisstjórn sem þeir hlutu MJÖG nauman meirihluta fyrir í kosningunum um síðustu helgi. Mér finnst rétt skref hjá Geir að koma sér út úr samstarfi við Frammarana og bjóða Samfylkingu upp í dans.

Það er bæði sterk stjórn og sennilega næst vilja fólksins í landinu að þetta gerist, hvað sem Steingrímur J segir. Mínar heimildir segja að farið hafi mörg SMS milli VG og Sjallana og VG gefið eftir í nánast öllum málum hvað varðar stóriðju og beinlínis boðið Sjöllunum upp á hvað sem þeir vildu ef þeir vildu vera memm með þeim.

Ég býst við að fljótlega náist saman og hér kemur ráðherralistinn minn:

D listi

Geir H Haarde, forsætisráðherra

Þorgerður Katrín, heilbrigðisráðherra

Illugui Gunnars, landbúnaðarr.

Einar K, Sjávarútvegsr.

Bjarni Ben, dómsmálaráðherra

Guðlaugur Þór, Samgöngur.

 

S listi

ISG iðnaðarráðherra

Össur Skarp, utarríkisráðherra

jóhanna Sig, heilbrigðisráðherra

Ágúst ólafur, viðskipta og kirkjumálar.

Kristján Möller, félagsmálaráðherra

Björgvin G Sigurðsson, menntamálaráðherra

 

Hvernig ráðuneytin skiptast er ekki ljóst á þessum tímapunkti, en þetta er alla vega ráðherralisti beggja flokka hvernig svo sem þeir ákveða hverjir verða hvað.

Finnst skrýtið hvað Steingrímur J er svekktur eftir kosningarnar. Hann getur sjálum sér um kennt hann hraunaði yfir Frammarana í Kastljósinu og heimtaði afsökunarbeiðni en hefði kannski betur haldið kj og kynngt kergjunni sem þeirra á milli fór í einrúmi. Þessi maður er ekki traustvekjandi svo ekki sé meira sagt.

Vona að allir hafi það sem best um helgina

 


Fyrsti bloggdagurinn

Jæja, þá er maður kominn með bloggsíðu og getur maður þá loksins látið gamminn geysa á öldum internetsins.

Það var fróðlegt að horfa á Stöð2 í gær. Formenn allra flokka sátu fyrir svörum með misgóðum árangri. Það bar svo sem ekkert nýtt við, Ómar talaði um náttúruvernd, Steingrímur um femínistann í sér, Addi Kitti Gau um kvótakerfið og innflytjendur, Ingibjörg um ekki neitt og Jón Sig sagði fullt af einhverju merkilegu sem enginn skyldi. Geir kom best út úr þessu að mínu mati og Sjallarnir eiga mitt atkvæði eftir þennan þátt.

Skyldi ekki vera farsælast fyrir formenn þessa litlu flokka eins og Framsókn að taka vinkilbeygju og reyna eitthvað nýtt til að höfða til kjósenda. Það er svo fyrirséð að þessi einsmálefnis flokkar ætla ekki að gera neitt á þingi nema til að tefja einhver þingmál svo þeir geti vakið á sér athygli. Þeir eru of litlir til að koma að gagni, að mínu mati, og þess vegna ekki eyðandi atkvæðum í þá.

Vona samt að allir hafi góðan dag í dag.


« Fyrri síða

Höfundur

Helgi Jónsson
Helgi Jónsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband