Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Það er alltaf gaman að heyra VG liðið tjá sig um Varnarmálastofnun

Þeir vilja leggja hana niður til að spara en hvað á að gera í staðinn kemur aldrei fram. Það er nefnilega svo að við erum í NATO og berum skyldur gagnvart þeirri ágætu stofnun. Hvað á að gera ef sú staða kæmi upp að Varnarmálastofnun yrði lögð niður? Ganga úr NATO og skila ratsjánum sem við höfum afnot af. Frábært fyrir fjárhag Flugstoða og Ríkisins.

Þetta lið kemur aldrei með neinar lausnir heldur á bara að leggja niður heila stofnun og ekkert á að koma í staðinn. Kynnið ykkur málin betur áður en þið komið með sleggjudóma sem engin innistæða er fyrir. 


Ég hef verið að lesa pistla Einars K Guðfinnssonar

sem er minn þingmaður, því ég skipti um lögheimili fyrir síðustu kosningar til að geta kosið hann. Hann er sá ráðherra sem sennilega minnst hefur farið fyrir í aðdraganda falls bankanna og gríðarlegu falli krónunnar. Núna stígur hann á stokk og kveður upp með það að enginn mismunur verði gerður á Jóni og Séra Jóni þar sem eingöngu sé Jón.

Hann á þá vonandi við að okkur íbúðareigendum og þeim sem eru að missa vinnu og fasteign verði bjargað eins og Karli Wernersyni og CO. Það verður samt seint gert með eins milljarðs björgunarpakkanum fyrir landslýðinn. 50 milljarðarnir sem Karl fékk myndi þó geta bjargað nokkrum úr verstu klípunni.

Einar talar einnig um skítt og laggó stefnu sem hann telur að VG muni fylgja ef þeir komist til valda. Hann tekur þó ekki með í reikninginn skítt og laggó stefnu sem Geir Haarde hefur fylgt síðan bankahrunið mikla varð. Geir hefur nefnilega fylgt þeirri stefnu dyggilega og ekki haft fyrir því að bera hönd fyrir orðspor Íslendinga erlendis og farið í PR stríð við þjóðir heims, heldur réð hann PR fulltrúa fyrir sig persónulega til að ákveða bros dagsins, mynd dagsins, pósu dagsins og síðast en ekki síst tilgagnslausa blaðamannafundi dagsins.

Hann kemur opinberlega fram og segir að ekki sé neinar sannanir fyrir því að orðspor landsins hafi beðið hnekki útávið, þó svo að ég geti vottað að svo sé. Þetta er sko skítt og laggó stefna Geirs gagnvart þjóðinni. Einhver efi hefur þó læðst að Forsætisráðherranum úr því að hann réð til sín þennan hermálafulltrúa á okkar kostnað, og hann því talið að hann myndi þurfa einhverskonar áróðursherferðar við, en honum datt ekki í hug að við hinir landsmenn sem þurfum að borga brúsann að lokum þyrftum nokkra vörn í þessari orrahríð.

Ég hef verið andsnúinn aðild að ESB hingað til. Núna hef ég breytt um skoðun. Ég vil inn í ESB og ef eina ágreiningsefnið er fiskurinn í sjónum í kringum landið þá er mér alveg sama hvað verður um hann, ég hef aldrei fengið svo mikið sem einn fisk úr sjó og kvótinn á höndum nokkurra útgerðabaróna. Mér er alveg sama hvað verður um þá kalla, þeim er augljóslega bjargað af stjórnvöldum en almenningur er látinn blæða.

Það er vonandi að skítt og laggó stefnu Sjálfstæðisflokksins fari að linna og menn sjái að sér innan tíðar, annars má búast við hinu versta.


Frábærar fréttir að þetta var ekki hærra

ég bjóst satt að segja við að skattahækkanir yrðu hærri en þetta. Sjálfsagt er þetta bara byrjunin, því miður, en engu að siður köld vatnsgusa framan í skuldsettasta fólkið og þá sem ekki hafa atvinnu.

Ég heyrði um daginn að um 60 milljörðum væri skotið undan skatti á ári hverju. Það er einsýnt að þessi tala á eftir að lækka nú, þegar þrengir að á  atvinnumarkaði.

Ég legg til að stóreflt verði í liði skattrannsóknarstjóra og t.d þeir bankamenn sem misst hafa vinnuna upp á síðkastiðð verði boðin vinna við að uppræta skattsvik. Ef 1000 viðskipta og lögfræðingar, eða hvaða nafni má kalla þetta fólk, gerðu þó ekki annað en vinna fyrir laununum sínum við upprætingu skattsvika, þá mætti minnka atvinnuleysi stórlega og jafnvel laga afkomu ríkissjóðs í leiðinni.

Hins vegar finnst mér eins og mörgum, að ríkisstjórnin sé komin að fótum fram og skipa ætti þjóðstjórn sérfræðinga til að leysa málin. Ekki mættu stjórnmálamenn eða menn tengdir sitjandi þingmönnum, sitja í þessari þjóðstjórn og verkefnið væri að hreinsa upp mistökin sem núverandi stjórnendur landsins hafa komið okkur í.

Það hlýtur að vera einhverskonar heimsmet hvernig komið er fyrir okkur, mistök gerð á mistök ofan ekki ósvipað og þegar herinn var látinn fara skuldlaust frá landinu vegna hroka stjórnvalda í garð bandaríkjamanna. Þetta dæmi er að gerast aftur núna með hruni bankanna og þeim hremmingum sem við erum komin í.

Er ekki tími til kominn að landsfeðurnir láti af hrokaskap og beygi sig undir staðreyndir og láti af embættum. 

 


mbl.is Hækkun tekjuskatts og útsvars 1,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BYR, SPRON og SPKEF eiga að sameinast

fyrir áramót. FME samþykkir þetta sennilega athugasemdislaust og allt verður í lagi hvað þá varðar.

Rakst á pistil eftir Gunnar Axel sem er athyglisverður.

Hvað varðar FME, þá hef ég það eftir fyrrverandi bankamanni í Glitni, að þegar bankarnir voru hvað sterkastir þá réðu þeir til sín alla þá sem eitthvað var varið í, hinir enduðu hjá FME.

Það er því handleggur hjá FME að rannsaka bankahrunið. Samkvæmt sama heimildarmanni kemur her manns frá FME á degi hverjum og spyr fyrrverandi starfsmenn gömlu bankanna og núverandi starfsmenn nýju bankanna, hvar eigi að byrja þann daginn.

Það er augljóst að það er hægt að beina FME frá þeim stöðum sem hættulegir kunna að virðast og rannsaka einungis þá sem öruggt er að ekkert er að.

Hvernig væri að fá bandaríska FME starfsmenn  hingað til að skoða hvað gerðist. Það gæti skilað árangri.

Það þarf einnig að rannsaka pólitíska ábyrgð þessa hruns og hvað hinir einstöku embættismenn gerðu eða gerðu ekki.

Ég veit svo sem ekki hver ætti að biðja um slíka rannsókn þar sem svona rannsóknir litast af því hverjir biðja um hana, en kannski væri ASÍ ekki svo vitlaus hugmynd.


Ekkert má út af bregða,

er sannmæli svo ekki sé dýpra tekið á árinni.

Mér finnst einhvernvegin samt að verið sé að koma Íslandi bakaleiðina inn í ESB án þess að mikið fari fyrir því.

Kannski verður komin evra í veskið í næstu eða þarnæstu viku og þar með Ísland í ESB.


mbl.is „Ekkert má út af bera“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært. Hvort það var í júní eða júlí

sem ISG hitti Davíð skiptir bara ekki máli, heldur hitt hvenær fara á að taka á málefnum heimilanna.

Fyrir mér skiptir það öllu máli en ekki hvenær hver sagði hvað og hvernig.

Annars er frábært þetta með barnabæturnar sem farið er að greiða út mánaðarlega eins og Jóhanna kynnti og sló sér á brjóst um leið og hún táraðist af göfuglyndi í garð barnmargra fjölskyldna. Þetta var bara ekki gert fyrir barnmargar fjölskyldur heldur til að lækka útgjöld ríkisins.

Það er nefnilega þannig að í nóvember byrjun voru borgaðar út barnabætur til næstu þriggja mánaða og ekki fyrr en í febrúarbyrjun verður byrjað að borga út samkvæmt nýju reglunum, en þá ekki til þriggja mánaða eins og verið hefur heldur til eins mánaðar í einu. Verra fyrir hinar barnmörgu fjölskyldur en frábært fyrir ríkið sem nú hefur fimm mánuði til að vega upp það sem annars hefði orðið.

Jóhanna þú ert gull af konu, og kemur sífellt á óvart með gjafmildi þinni og óbilandi baráttu fyrir velferð ríkisins en lætur líta út fyrir að þú sért að gera eitthvað fyrir fjölskyldur þessa lands.


mbl.is Ingibjörg: Aldrei talað um 0% líkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það væri meiriháttar kraftaverk

ef það yrðu stjórnarslit. En nei, þessir kallar halda í völdin eins og síðasta hálmstráið (sem það og er) og eru í bullandi afneitun.

Geir H Haarde telur ekki koma til greina að biðja þjóðina afsökunar á hans þætti í hruninu einfaldlega vegna þess að hann hafi ekkert gert rangt í því hruni sem þjóðin stendur frammi fyrir af fullri alvöru.

Ég veit að ég á minn litla þátt í því sem gerst hefur, ég glaptist til að kaupa hús og bíl á bullandi lántökum sem mér var ráðlagt af lánafulltrúum bankanna. Ef ég er ekki saklaus, eins og margir aðrir hvað má Geir Hilmar Haarde segja um sinn þátt og hans undirmenn. Geir VERÐUR að fara að vakna af værum blundi og tala til þjóðarinnar eins og maður. Við fáum að frétta meira um hugsanir Geirs og framkvæmdir í gegnum erlenda fréttamiðla. Væri ekki tími til kominn að við fréttum hvað forsætisráðherra væri að hugsa í okkar fjölmiðlum fyrst og síðan sjá það í erlendum blöðum. 

Mótmælin á Arnarhóli eru bara byrjunin. Blóðugir bardagar munu sennilega eiga eftir að breiðast út og bardagar milli lögreglu og mótmælenda eiga eftir að harðna. Táragas verður notað gegn mótmælendum, eins og dæmin sanna, og því svarað með svipuðum hætti og er að gerast nú í Grikklandi þar sem lögregla banaði 15 ára dreng. Allt er í báli og brandi þar vegna minna máls en er hér að gerast. Stjórnvöld verða að gera sér grein fyrir reiði fólksins og grípa til þeirra meðala sem duga til að ekki sjóði hreinlega uppúr og alvarlegir hlutir eins og mannfall verði ekki. Það virðist samt stefna í það með gerðum eða aðgerðaleysi þeirra manna sem hér fara með valdið

Ég dauðkvíði mánaðarmótum jan-feb, þegar uppsagnir manna taka gildi og örvæntingin og getuleysið til að lifa af atvinnuleysisbótum verður staðreynd. Hvað gera heimilisfeður þá? Hræddur er ég um að það fjölgi í mótmælendahópnum og krafan um mannsæmandi líf verði háværari. 

Vonum að öllum ( pólitískt ) vopnfærum mönnum renni blóðið til skyldurnar og beiti því vopni sem Alþingi 'íslendinga er og hefji hina raunverulegu byltingu, því bylta þarf hvernig kosið verði til Alþingis í framtíðinni og hvernig bregðast eigi við ábyrgð ráðherra og alþingismanna. Með afsögn ríkisstjórnar og uppbyggingu nýs Íslands með farsæld og hamingju að leiðarljósi, eins og Jónína Ben virðist vera að reyna að gera með Framsóknarflokkinn. Vonandi heppnast henni ætlunarverkið.


mbl.is Myndi jafngilda stjórnarslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Helgi Jónsson
Helgi Jónsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1024

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband