Síminn hf

er öldungis ótrúlegt batterí. Núna hefur hann einhliða breytt öllum samningum sem gerðir hafa verið um þjónustu internettenginga með ótakmörkuðu niðurhali, án þess að láta neinn vita.

Fyrir síðustu mánaðarmót hafði ég 8Mb tengingu með ótakmörkuðu niðurhali en skyndilega þann 1 júlí er ótakmarkið tekið af og takmark sett við 80 Gb. Samningurinn sem ég gerði sagði ótakmarkað, og er þar stór munur á ef takmarka á við eitthvað ákveðið. Þá er samningurinn ógildur og spurning hvort Síminn sé ekki skaðabótaskyldur fyrir einhliða samningsrof.

Síminn hefur líka leikið þann leik að skrúfa niður hraða til viðskiptavina sinna ef honum þykir viðkomandi hala heldur frjálslega til sín, jafnvel þó viðkomandi hafi ótakmarkað hiðurhal. Ef Síminn treystir sér til að gera samninga um eitthvað ótakmarkað, þá finnst mér að hann ætti að virða þá samninga sem menn gera við hann í góðri trú.

Það má deila um hvort 80Gb sé ekki full nóg til niðurhals á mánuði, en hafa ber orð Bill Gates í huga þegar svo er fullyrt, þegar hann sagði að enginn hafi þörf fyrir meira minni en 640kb í tölvu sinni.

Ég talaði við lögfræðing um það hvort Símanum væri stætt á því að lækka internethraðann úr 8Mb í 512Kb og rukka sama verð fyrir þjónustuna og kvað hann svo ekki vera. Ef Síminn lækkaði hraðann gæti hann ekki rukkað fyrir meira en það sem hann væri að afhenda í það og það skipti.

Það er líka ekkert auðvelt að ná sambandi við einhvern með viti hjá þessu fyrirtæki. Enginn veit neitt og getur ekki vísað á neinn sem getur svarað spurningum um þessi mál. Þetta vesalings fólk sem svarar í símann hjá Símanum getur í besta falli selt manni áskrift og komið manni til hjálpar með einföldustu tæknimál, en ekkert vantar upp á kunnáttuna þegar reikningarnir berast manni og innheimta á sér stað.

Ég held að Símanum og kannski fleiri símafyrirtækjum væri hollast að hysja upp um sig buxurnar og gera sér grein fyrir því að kúnnarnir borga þeim fyrir veitta þjónustu og þar með líka kaup þeirra sem vinna þar,  ásamt þeim ágóða sem eigendurnir stinga á sig á hverju ári. Það kemur að því að fólk lætur ekki hafa sig að fíflum lengur og annað hvort flytur sig til betri aðila eða segir upp þjónustunni.


Verðhækkanir á olíu

eru staðreynd hvort sem um er að kenna spákaupmennsku eða vöntun. Það er samt umhugsunarvert að verslað er með 3,3 milljarða tunna á dag en einungis er framleitt ríflega 800 milljónir tunna á dag í heiminum öllum. Spákaupmennska? alveg örugglega. Einungis örfá ár eru síðan spákaupmönnum var leyft að kaupa olíu á mörkuðum, síðan þá hefur olían stöðugt tekið verðbreytingum og er eins og allir vita, í hæstu hæðum í dag.

Mín tillaga er að hækka verðið á bensíni og olíu strax í 500 kall og byrja lækkunarferli svo landinn taki gleði sína á ný. Ennþá yrði líterinn af bjór dýrari, einhverra hluta vegna þó hann sé 99% vatn.


mbl.is Deilt um ástæðu verðhækkana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugvallarmálið í Reykjavík

tók nýja stefnu í gær, þegar birtar voru niðusrstöður skoðanakönnunar sem fram fór nú á dögunum. Þar kemur í ljós að yfirgnævandi fjöldi manna vildi HAFA flugvöllinn þar sem hann er.

Athygli vakti að 59% kjósenda Sjálfstæðisflokksins vildi völlinn þar sem hann er, og skyldi nú vera komin skýringin á því af hverju flokknum gengur svo illa í kosningum. Þau Gísli Marteinn og Hanna Birna ættu nú að kúvenda í málinu eða hætta í pólitík ella að hleypa að mönnum sem virða vilja fólksins. Þetta mál er Sjálfstæðisflokknum til skammar vitandi það að málið byrjaði hjá samtökum sem heitir "Betri byggð" fór þaðan til Samfylkingarinnar og þaðan rataði málið hjá Gísla Marteini og Co.

Það, að taka upp mál sem Samfylkingin fór af stað með upphaflega og ætla að vinna kosningar án þess að virða vilja fólksins, er fyrir neðan allar hellur. Sjálfstæðisflokkinn vantar fólk í forystu til að játa þá staðreynd að flugvöllurinn á að vera þar sem hann er, og vinna út frá því. Þannig gæti flokknum vegnað betur í framtíðinni.


Er ekki nóg komið

þegar sveitarfélögin á Suðurnesjum talast ekki við um lagningu rafmagnslína vegna uppbyggingu starfa á Miðnesheiði og Helguvík.

Hvað sem mönnum finnst um ljótleika línanna þá eru þær nauðsynlegar til að flytja rafmagn á sem hagkvæmastan máta. Ef leggja á allar línur í jörð, þá verður svo mikið tap í línunum, að reisa verður virkjun á stærðargráðunni Kárahjúka til þess eins að vinna upp tapið sem verður við flutning raforkunnar. Vinstri Grænir allra flokka virðast ekki skilja málið og telja það sér til framdráttar að hindra alla uppbyggingu atvinnu á Íslandi og koma helst öllum aftur inn í moldarkofana og fimm hundruð ár aftur í tíma, þegar fólk lifði við sult og seyru og rétt dró fram lífið. Umhverfisofbeldið hjá þessu liði er makalaust. Það má ekki gera nokkurn skapaðan hlut lengur án þess að málið fari fyrir umhverfismat og það er dýrt og ekki atvinnu til framdráttar.

Það er tími kominn til að hætta að hlusta á VG liðið og byrja að nytja alla þá orku sem við getum fengið frá móður náttúru, okkur og börnum framtíðar til heilla.


Varnarmálastofnun

hin nýja, hefur fengið góðan liðsmann þar sem Tinna er. Ég vil samt byrja á því að óska henni innilega til hamingju með starfið, sem á eflaust eftir að vera krefjandi og vonandi skemmtilegt.

 Varnarmálastofnun og hennar hlutverk með varnir landsins er umdeilt. Það ætti þó mönnum að vera ljóst að í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins höfum við sem þjóð eitthvað um varnir landsins að segja. Þó að gistikostnaður sé hár í augum sumra, þá er hann smáræði miðað við það sem önnur NATO ríki kosta til að koma hingað og sinna loftrýmisgæslu landsins.

Við eigum að vera stolt yfir því að vera loksins laus undan klafa erlends ríkis og reka okkar varnarmál, stolt og sjálfstæð.


mbl.is Skipuð forstjóri Varnarmálastofnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er

með þennan Jón Gunnarsson þingmann Sjálfstæðisflokksins, er hann á móti veru okkar í NATO eða bara svekktur yfir því að hann fékk ekki loftrýmisgæsluhlutverkið í Skógarhlíðina eins og hann ætlaði. Það er bara tvennt sem hægt er að gera í stöðunni. Annarsvegar sinna gestahlutverkinu og fá aðrar þjóðir til þess að halda uppi loftvörnum yfir Íslandi eða hinsvegar að segja sig úr NATO.

Að segja sig úr NATO yrði stórmál og vekti stórkostlega neikvæða athygli um allan heim. Við erum í fyrsta skipti orðin sjálfstæð þjóð sem tekur sjálfstæða ákvörðun um varnir sínar og borgar fyrir þær. Við erum ekki lengur bara þiggjendur og upp á aðra komnir heldur farnir að leggja til peninga fyrir okkur sjálf, til varnar eigin lands.

Hvað varðar hörmungarnar í Kína, þá er samúð mín hjá Kínversku þjóðinni og mér finnst sjálfsagt að bjóða fram þá aðstoð sem við getum boðið fram. Það er þá hlutverk Kínverjanna að hafna eða þiggja slíkri aðstoð.


mbl.is Ísland velji ekki hernaðarverkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolvíkingar

eru æstir þessa dagana. Meirihlutaskipti í bæjarstjórn og K-lista fólk óhresst yfir því að fá ekki lengur að vera með, skiljanlega.

Eftir að hafa búið í víkinni í 12 ár og hafa fylgst með pólitíkinni þar allan þann tíma, og einnig eftir að ég flutti suður, þá hef ég ekki fundið aðra eins heift í fólki eins og núna. Nokkrir einstaklingar hafa farið hamförum og gert allt sem hægt er að gera til að koma höggi á verðandi meirihluta og fólkið sem starfar að heilindum fyrir bæjarfélagið.

Mér finnst til dæmis ákaflega ósmekklegt af eiginmanni læknis bæjarins, að líkja bæjarbúum við apa af því að honum fellur ekki það sem er að gerast í bæjarpólitíkinni. Sjá færslur hans hér.  http://lydurarnason.blog.is/blog/lydurarnason/entry/524611/

Á sama tíma og þetta fólk er að tala um einingu og samstarf, þá virðist ekki vera sama hvaðan einingin og samstarfið kemur, það verður að vera að skapi þessa fólks, eða ekki. Mig tekur það sárt að sjá hvað nokkrir einstaklingar geta gert til að sundra því góða orðspori sem Bolungarvík hafði meðal landsmanna með neikvæðum og einhæfum fréttaflutningi.

Án þess að ég ætli að bera í bætifláka fyrir A-listann, þá held ég að þessi slit meirihlutans fyrrverandi hafi haft aðdraganda, sem kannski eiga eftir að koma í ljós seinna meir. Ég þekki Önnu Edvards það vel að hún hefur ekki tekið neina skyndiákvördun um slitin. Ég treysti Elíasi og hans fólki til þess að reka bæjarfélagið vel og skynsamlega og vona að samstarfið við A-lista verði heilladrjúgt.


Ekki veit ég

hvort sakast á við sauðina í Vegagerðinni eða mannsauðina sem aka um vegi landsins. Þeir sem aka framhjá Vogaafleggjaranum ættu að gera sér ljóst að um vegaframkvæmdir er að ræða og líta eftir merkingum og fara varlega. Það eru ekki svo litlar og augljósar merkingar um framkvæmdir að það ætti að fara framhjá nokkrum manni.

Hins vegar er merkilegt að Vegagerðin skuli ekki halda framkvæmdum áfram strax og ljóst var að verktakinn var í greiðsluerfiðleikum og taka fram fyrir hendurnar á þeim áður en illa fór og reyna að koma í veg fyrir svo langt stopp á framkvæmdum og raunin er.

Það hefði líka verið hægt að koma fyrir leiðarljósum í götunni sem leiddi þá sem vilja fara óvarlega, hvert þeir eigi að fara svo þeir fari sér ekki að voða. Oft hef ég orðið vitni að þvi að menn beygja strax inn á vinstri akrein eftir að þeir eru komnir framhjá beygjukeylunum og virðast vera búnir að gleyma að um vegaframkvæmdir séu að ræða og horfa ekki á skiltin sem Vegagerðin hefur þó komið upp, mönnum til upplýsingar. Það er aldrei of varlega farið þegar menn eru óöruggir, og menn ættu að muna að vinstri akreinin er ætluð til framúraksturs hvort sem um eina eða tvær akreinar eru að ræða og ættu aldrei að keyra á vinstri akrein bara af því að hún er þarna.


mbl.is Akstursstefnur aðgreindar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trukkabílstjórar

eru að fara úr límingunum yfir háu eldsneytisverði þessa dagana. Þeir stoppa umferð vítt og breytt um borgina og víðar og skapa usla meðal hins venjulega borgara sem reynir að koma ekki of seint til vinnu svo ekki verði dregið af launum þeirra. Þetta útspil trukkaranna er sjálfsagt tilraun þeirra til að knýja stjórnvöld til þess að leyfa þeim að nota litaða olíu á trukkana sem eyða 60-70 lítrum á hundraðið.

Þessi ökutæki slíta vegunum hvað mest og verða þeir sem slíta vegunum mest að borga mest. Það er umhugsunarefni að olía sem kostar c.a 157 kr. líterinn hingað kominn eftir að leit hefur farið fram eftir olíu víðsvegar um heiminn, boraðar hafa verið tíu borholur og ein gefið það magn sem ásættanlegt getur fundist síðan er dælt í risaskip og hráolíunni siglt til næstu olíuhreinsistöðvar, hún hreinsuð og dælt aftur í skip sem síðan siglir þvert um heiminn og skilar bensínininu eða dísilolíunni í risastóra tanka til afgreiðslu fyrir notandann. Þá kemur að innlendu olíufélugunum að dreifa bensíni og olíu til viðskiptavinarins sem kaupir olíuuna og bensínið á helmingi lægra verði pr. líter en bjórinn sem er 98% vatn sem fæst ókeypis úr krananum.

Ég segi hins vegar "Lækkið skatt á bjór og brennivín frekar en bensíni" og látið þá sem eyða mest af olíu borga fyrir það, einhver verður að standa fyrir vegaframkvæmdun og rekstri ríkissjóðs ef ekki með bensínsköttum þá einhverjum öðrum sköttum sem mér hugnast verr.


Loksins

kemur eitthvað af viti frá Landbúnaðarráðuneytinu, eða ráðherra þess. Það er komin tími til að gefa landsmönnum tækifæri á ódýrari matvælum en hingað til. Það er skrýtið til þess að hugsa að svo virðist sem ekkert megi hrófla við landbúnaðinum en sjávarútvegin megi endalaust skerða án þess að nokkur segi neitt.

Bændur hafa alltaf haft öfluga "lobbíista" til að koma sínum málum á framfæri og Framsóknarflokkurinn hefur alltaf staðið vörð um bændur og þeirra mál, enda hagnast vel fyrir. Loksins er kominn maður í Landbúnaðarráðuneytið sem þorir og vill gera eitthvað fyrir þá sem borga brúsann, þ.e launafólk þessa lands. Ég segi bara, áfram Einar og haltu áfram á þessari braut og lækkaðu tolla af innfluttum matvælum.


mbl.is Landbúnaðarráðherra boðar tímamótabreytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Helgi Jónsson
Helgi Jónsson

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 1024

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband